Evrópuráðstefnan í Marrakech 25.-28. september.

Kæru kollegar.

Mig langar að segja ykkur örlítið frá fyrirhugaðri Evrópuráðstefnu um hugræna atferlismeðferð í Marrakech í Marokkó dagana 25.-28. september n.k. þar sem ég var sjálf að koma frá svæðinu, kynnti mér aðstæður – og varð stórhrifin!

Ég dvaldi á Palmerai Golf Palace hóteli (sjá http://www.pgpmarrakech.com) sem er fimm stjörnu hótel við hliðina á ráðstefnumiðstöðinni – sem noto bene minnir á forna marokkóska höll-  en hvoru tveggja er umlukið yndislegum aldingarði þar sem notalegt er að slappa af milli appelsínu- og pálmatrjáa, við bakka mósaíklagðra sundlauga og gosbrunna. Það er upplifun að dvelja á þessu hóteli, morgunverðarhlaðborðið ógleymanlegt (eins og úr 1001 nótt) og verðið hagstætt miðað við þann íburð sem um ræðir. Þá eru samt hagstæðari möguleikar í stöðunni, til dæmis má leigja allt að þriggja herbergja íbúðir á svæðinu fyrir 116 evrur nóttina en deili 6 manns íbúð er verðið rúmar 3500 krónur nóttin á mann. Ég mæli alla vega með að ráðstefnugestir dvelji á Palmerai-svæðinu þar sem ráðstefnan er haldin – og allt fjörið verðurJ – en frá hótelunum fara reglulegar ferðir niður í miðbæ sem er í 20 mínútna akstursfjarlægð frá svæðinu.

Best er að bóka gistingu í gegnum ráðstefnusíðuna, http://eabct2013.org, en mér sýnist að búið sé að semja þar um verð fyrir ráðstefnugesti og taka frá einhver pláss á hótelunum.

Á skemmtidagskrá ráðstefnunnar er meðal annars fyrirhugað hanastél í aldingarðinum og kvöldverður á hefðbundnum berbneskum veitingastað þar sem sólin sést setjast yfir eyðimörkina. Vísindaprógrammið er fjölbreytt en meðal aðalfyrirlesara má nefna Susan Bögels sem fjallar um árvekni í fjölskyldum og framheilastarf, Ron Rape sem ræðir um meðhöndlun kvíðaraskana ungmenna, Robert Leahy um tilfinningaleg skemu, Richard Bentall um félagslegan uppruna jákvæðra einkenna í sturlun og Judith Beck um hugræna meðferð við persónuleikaröskunum (nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar á http://eabct2013.org).

Ég mæli með að fólk bóki flug sem allra fyrst þar sem flugfargjöld fara óðum hækkandi eftir því sem á líður á vorið. Fjöldi flugfélaga flýgur frá London til Marrakech og má þar m.a. nefna Easy Jet, Ryan Air og British Airways (sjá t.d. dohop.com). Fargjöld milli London og Marrakech mælast nú á bilinu 30-40 000 krónur báðar leiðir. Hagstæð flugfargjöld má einnig finna í gegnum París og sumir hafa fundið ódýr fargjöld til Casablanca og taka þá lest til Marrakech.

Ódýrasta ráðstefnugjaldið fæst fyrir 24. maí nk. og vil ég minna á að meðlimir í Félagi um hugræna atferlismeðferð fá rúmlega tíu þúsund króna afslátt af ráðstefnugjaldi (greiða sem „members“).

Missið ekki af ráðstefnu í einstöku umhverfi!

Bestu kveðjur, Sóley D. Davíðsdóttir formaður Félags um hugræna atferlismeðferð.

This entry was posted in Ráðstefnur. Bookmark the permalink.

Comments are closed.